Gera ráð fyrir miklu lakari afkomu hjá flugfélögum á næsta ári

Horfurnar í fluggeiranum halda áfram að versna að mati sérfræðinga alþjóðasamtaka flugfélaga, IATA. Ný spá þeirra gerir þannig ráð fyrir að flugfélögin tapi 118,5 milljörðum evra í ár sem er hækkun um fjörutíu prósent frá síðustu spá IATA sem birt var í sumarbyrjun.

Á næsta ári dregur verulega úr taprekstrinum en hann verður samt sem áður um 39 milljarðar evra eða um 6,3 billjónir króna. Þetta er ríflega tvöfalt meira tap en sérfræðingar IATA höfðu áður spáð.

Í frétt á vef IATA segir að að rekstrabatinn á næsta ári komi aðallega fram á seinni helmingi ársins þegar eftirspurn eykst í takt við opnun landamæra og tilkomu bólusetningar fyrir Covid-19.

Tekjur af fraktflutningum, til að mynda á bóluefni, munu líka koma flugfélögunum til góða. Engu að síður þurfi stjórnendur flugfélaga áfram að vera harðir í að skera niður kostnað að mati IATA.

Spá samtakanna gerir ráð fyrir að í Evrópu dragist framboðið á næsta ári saman um 49 prósent en eftirspurnin ennþá meira eða 56 prósent þegar borið er saman við árið 2019.

Þessi grein er öllum opin en flestar fréttir Túrista eru aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.