Samfélagsmiðlar

Hafa sagt upp helmingi skrifstofufólks og 84 prósent flugmanna

Að öllu óbreyttu verða nærri átta starfsmenn á skrifstofu Icelandair á hvern flugmann um áramótin. Hlutfallið var nærri fjórfalt lægra fyrir heimsfaraldurinn. Hjá Finnair er staðan önnur.

icelandair 767 757

Það voru 562 flugmenn að störfum hjá Icelandair sumarið 2019. Um síðustu áramót var 112 þeirra sagt upp vegna áframhaldandi kyrrsetningar Boeing MAX þotanna. Þar með voru 450 flugmenn með vinnu hjá flugfélaginu en flestir þeirra fengu uppsagnarbréf í vor vegna ástandsins sem Covid-19 hefur valdið.

Í dag eru 139 flugmenn á launum hjá Icelandair en 68 þeirra hefur verið sagt upp frá og með áramótum. Eins og staðan er núna hefur flugmönnum hjá Icelandair því fækkað um 69 prósent frá byrjun þessa árs. Að öllu óbreyttu verður hlutfallið komið í 84 prósent um komandi áramót.

Hjá flugfélaginu hefur starfsfólki á skrifstofu fækkað hlutfallslega mun minna eða um tæpan helming. Í febrúar voru um þúsund starfsmenn á skrifstofum Icelandair en fjöldinn var kominn niður í 540 í október. Þetta kemur fram í svari félagsins við fyrirspurn Túrista.

Þar segir að til starfsfólks á skrifstofu teljist m.a. sölu- og þjónustusvið, fjármálasvið, mannauðssvið, þróun og rekstur leiðakerfis, upplýsingatækni og flugrekstrarsvið.

Framboðið dregist gríðarlega saman

Flugfélög víða um heim hafa sagt upp stórum hluta starfsmanna sinna síðustu mánuði enda hafa samgöngur milli landa verið mjög takmarkaðar í ár. Framboðið hjá Icelandair dróst til að mynda saman um 96 prósent í september enda getur félagið ekki lengur boðið upp á reglulegt flug til Norður-Ameríku. Ferðirnar vestur um haf vega þungt í leiðakerfi félagsins.

Á sama hátt byggir Finnair starfsemi sína að miklu leyti á flugi til Asíu. Ferðirnar þangað liggja líka að mestu leyti niðri. Framboðið hjá finnska flugfélaginu minnkaði um 88 prósent í september.

Sami fjöldi flugmanna hjá Finnair og í ársbyrjun

Hjá Finnair hafa stjórnendur hins vegar snúið sér öðruvísi í niðurskurðinum. Fyrr í þessum mánuði var til að mynda tilkynnt um uppsagnir sjö hundruð starfsmanna en þær náðu ekki til áhafna.

Fjöldi flugmanna hjá félaginu hefur þannig haldist nær óbreyttur í ár segir í svari Finnair við fyrirspurn Túrista. „Við erum með rétt undir þúsund flugmenn hjá Finnair. Sá fjöldi hefur verið nær óbreyttur frá ársbyrjun en lítill hópur flugmanna fór þó á eftirlaun í ár.“

Flugmenn finnska félagsins hafa þó, líkt og aðrir starfsmenn, þurft að sætta sig við tímabundnar uppsagnir samkvæmt því sem segir í svari Finnair.

Þurfa miklu fleiri flugmenn fyrir sumarið

Í máli forsvarsfólks Icelandair hefur komið fram að félagið hyggist afturkalla uppsagnir áhafna um leið og aðstæður batna og eftirspurn eykst á ný. „Við teljum okkur geta brugðist hratt við um leið og þær aðstæður skapast,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, spurð hversu sveigjanlegt flugfélagið er í raun með aðeins um sjötíu flugmenn í vinnu.

Næsta sumar gerir Icelandair ráð fyrir að heildarsætaframboðið verði um 25 til 30 prósent minna en það var sumarið 2019. Þá voru, sem fyrr segir, 562 flugmenn í vinnu hjá Icelandair og þeir þyrftu þá að vera tæplega fjögur hundruð næsta sumar. Eða um sex sinnum fleiri en verða á launaskrá félagsins eftir áramót.

Þörfin fyrir fjölda flugmanna gæti þó verið aðeins minni því nýir kjarasamningar Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Icelandair kveða á um aukna vinnuskyldu.

„Stærstu atriðin í nýjum kjarasamningum flugmanna snúa að þáttum sem nýtast í öllu áætlunarflugi félagsins, ekki eingöngu á lengri leiðum svo reiknað er með að ávinningur af þeim verði staðreynd næsta sumar,“ segir Ásdís, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurð um hvernig samningarnir nýtast næsta sumar. Hún segir þá jafnframt gefa flugfélaginu kost á að fljúga lengri leiðir án þess að hvíld umfram reglugerðarkröfur þurfi að koma til á erlendri stöð.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …