Hóteljöfurinn svartsýnn á framhaldið

„Þeir sem fullyrða að kreppan sé á enda vita ekki hvað þeir eru að tala um. Það sem við höfum séð fram til þessa er bara byrjunin," segir Petter Stordalen sem rekur um 200 hótel á hinum Norðurlöndunum.

„Núna er viðskiptalífið að taka símalán á yfirsnúningi," segir Stordalen. Mynd: Marte Garmann

Næsta ár mun einkennast af fjöldagjaldþrotum og gríðarlegu atvinnuleysi meðal ungs fólks ef stjórnvöld rétta hótel- og veitingageiranum ekki hjálparhönd. Þetta er meðal þess sem fram kemur í aðsendri grein norska hóteljöfursins Petter Stordalen í sænska dagblaðinu Aftonbladet í gær.

Þar kallar Norðmaðurinn eftir auknum stuðningi við atvinnugrein sem byggi tilveru sína á því að fólk fái að ferðast og umgangast aðra. Þær takmarkanir sem nú gilda koma hins vegar í veg fyrir ferðalög og samkomur og því eru tekjur fyrirtækjanna nánast engar.

Þetta neyðaróp Stordalen hefur farið víða um helgina enda hafa stærstu viðskiptafjölmiðlar frændþjóðanna vitnað í greinina. Umsvif hans eru nefnilega mikil á öllum hinum Norðurlöndunum þar sem hann rekur hátt í tvö hundruð hótel. Og blaðafulltrúi Stordalen útlilokaði ekki fjárfestingar hér á landi í viðtali við Túrista stuttu fyrir heimsfaraldurinn.

„Þeir sem fullyrða að kreppan sé á enda vita ekki hvað þeir eru að tala um. Það sem við höfum séð fram til þessa er bara byrjunin,“ segir Stordalen í grein sinni. Vísar hann til þess að nú fjármagni fyrirtæki sig á lánsfé. „Núna er viðskiptalífið að taka símalán á yfirsnúningi,“ bætir Norðmaðurinn við og segir að blóðbaðið byrji á næsta ári þegar komið sé að skuldadögum.

„Það verður að gera upp leigugreiðslurnar sem fyrirtækin hafa fengið frestun á og reikningana frá birgjum sem hrannast hafa upp,“ skrifar Stordalen og segir að nú sé þörf á leikreglum fyrir hótel- og veitingageirann sem gildi lengra fram í tímann.

Auk þess verði atvinnugreinin að fá bætur sem taki mið af gildistíma þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa innleitt.

„Í stuttu máli sagt: Allar takmarkanir kalla á plástur frá hinu opinbera til að stöðva blæðinguna,“ segir norski hóteljöfurinn.

Þessi grein er öllum opin en meirihluti frétta Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.