Icelandair stefnir á 133 brottfarir í kringum jól og áramót

Umsvif Icelandair aukast umtalsvert í lok árs.

Nú liggur fyrir hvert og hversu oft þotur Icelandair munu fljúga í desember og byrjun janúar. Þar er áherslan töluverð á ferðir til Skandinavíu eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. En um sex af hverjum tíu Íslendingum sem eru með heimilisfang í útlöndum búa í Danmörku, Svíþjóð eða Noregi.

„Við finnum fyrir auknum áhuga á flugi yfir hátíðirnar, fyrst og fremst frá Íslendingum sem vilja komast heim og verja jólum og áramótum með sínum nánustu. Það er mikilvægt hlutverk okkar að tryggja góðar samgöngur til og frá landinu og við ætlum að mæta þessari eftirspurn með því að bjóða fleiri áfangastaði og aukna tíðni en við höfum getað boðið upp á undanfarnar vikur. Fari svo að einhverjar breytingar verði á flugáætluninni munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma farþegum okkar á sinn áfangastað,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Í heildina stefnir Icelandair á 133 brottfarir frá Keflavíkurflugvelli frá miðjum desember og fram til 10. janúar. Til samanburðar flaug félagið samtals 43 ferðir frá landinu í október.

Í ljósi fyrirkomulags á landamærum hafa sóttvarnaryfirvöld mælt með að fólk komi til Íslands í síðasta 18. desember til þess að eiga möguleika á að vera laus úr sóttkví á aðfangadag.