Jóla- og áramótaferðir til Íslands frá átján borgum

Þeir Íslendingar sem búsettir eru í Evrópu hafa úr töluverðu að moða ef þeir ætla heim fyrir jól eða áramót.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Síðustu vikur hafa brottfarirnar frá Keflavíkurflugvelli verið á bilinu ein til þrjár á dag. Umferðin mun þó þyngjast þónokkuð um miðjan desember því þá áformar Icelandair að fljúga mun fleiri ferðir en félagið hefur gert nú í haust.

Á sama tíma taka nokkur erlend flugfélög upp þráðinn í flugi hingað til lands. Þannig ætlar SAS að bjóða upp á ferðir frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn og dagskrá Lufthansa eru flug frá Frankfurt.

Stórtækast er þó Wizz Air sem ætlar að fljúga til Íslands frá sjö evrópskum borgum í desember eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Hið breska easyJet snýr líka tilbaka til Keflavíkurflugvallar í næsta mánuði en aftur á móti bíður British Airways ennþá með að senda sínar þotur hingað til lands.

Líkt og fram hefur komið þá þurfa allir í fimm til sex daga sóttkví við komuna til landsins. Hafa yfirvöld því mælst til að fólk komi til landsins í síðasta lagi 18. desember til að vera búið með sóttkví fyrir aðfangadag jóla.