Um 12 milljarða króna kröfur í þrotabú ferðaskrifstofanna

TravelCo Nordic var í eigu Arion banka og þar áður Andra Más Ingólfssonar. Skiptastjóri fyrirtækisins hefur óskað eftir því að bókhald fyrirtækisins verði skoðað nokkur ár aftur í tímann.

Nú er mánuður liðinn frá því að TravelCo Nordic, móðurfélag Heimsferða, varð gjaldþrota. Félagið var skráð í Danmörku og var í eigu Arion banka en bankinn tók reksturinn yfir í uppgjöri sínum við Andra Má Ingólfsson í fyrra.

Samtals tilheyrðu sex norrænar ferðaskrifstofur TravelCo Nordic en Arion banki keypti Heimsferðir og vörumerki dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo Tours úr þrotabúinu.

Það stefnir engu að síður í að gjaldþrot TravelCo Nordic komist í metbækurnar í Danmörku. Kröfur í þrotabúið nema rúmlega hálfum milljarði danskra króna eða nærri tólf milljörðum íslenskra króna. Eignir þrotabúsins munu vera litlar eða um 800 milljónir króna.

Ekki eru mörg dæmi um álíka stór gjaldþrot í dönskum ferðageira samkvæmt frétt Finans.

Þar er haft eftir skiptastjóra þrotabúsins að endurskoðendur hafi verið fengnir til að fara ofan í saumana á reikningshaldi TravelCo Nordic. Fyrrum endurskoðendur fyrirtækisins vildu til að mynda ekki skrifa upp á síðasta ársreikning fyrirtækisins.

Skiptastjóri segir að bókhald ferðaskrifstofanna verði skoðað nokkur ár aftur í tímann og gengið úr skugga um að þar leynist ekki saknæmar eða afturkræfar færslur.

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá hefur stjórn danska ferðaábyrgðasjóðsins farið fram á að ríkislögmaður í Danmörku taki til skoðunar gjaldþrot TravelCo Nordic.