Loks þegar nýja flugstöðin í Berlín opnar þá lokar Þýskaland

Nú munu allar þotur lenda á sama stað í Berlín því Tegel flugvelli verður lokað á næstunni.

Berlin Brandenburg Willy Brandt flugstöðin er við flugbrautirnar sem áður tilheyrðu Schönefeld flugvellinum í austurhluta borgarinnar. Mynd: Berlin Airport

Þotur easyJet og Lufthansa komu inn til lendingar nær samstundis í gær við nýja flugstöðina í höfuðborg Þýskalands, Berlin Brandenburg. Forstjórar flugfélaganna tveggja vígðu svo bygginguna en upphaflega stóð til að taka hana í gangið fyrir níu árum síðan.

Síðan þá hefur opnuninni verið seinkað samtals sjö sinnum og framkvæmdin hefur kostað þýska skattgreiðendur þrefalt meira en upphaflega var lagt upp með.

Það hefur nefnilega gengið á ýmsu. Flugstöðin uppfyllti ekki þær kröfur sem eru gerðar til brunavarna og svo reyndust rúllustigar of stuttir. Loftræstingin var heldur ekki nógu góð. Allt þetta hefur verið uppspretta fjölda hneykslismála í Þýskalandi og líka dómsmála.

En nú eru flugfarþegar loks farnir að ganga um sali Berlin Brandenburg flugstöðvarinnar en þá allir með grímu. Og það stefnir reyndar í að fáir verði á ferðinni fyrsta mánuðinn því hótelum og veitingastöðum í Þýskalandi verður lokað í nóvember til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Icelandair hefur ekki flogið til Berlínar síðustu vikur en næst þegar þotur félagsins halda til borgarinnar þá munu þær lenda við hina nýju flugstöð. Nánar tiltekið við Terminal 1 en þar hefur Icelandair verið úthlutuð aðstaða.