Lufthansa gæti þurft meiri opinbera aðstoð

Þotur merktar flugfélögunum innan Lufthansa samsteypunnar. MYND: LUFTHANSA GROUP

Þýsk stjórnvöld komu Lufthansa til bjargar í sumar með níu milljarða evru innspýtingu. Um leið eignaðist þýska ríkið um fimmtungs hlut í þessari stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu. Innan hennar er samnefnt þýskt flugfélag auk Swiss, Austrian, Eurowings og Brussels Airlines.

Nú herma heimildir þýska blaðsins Spiegel að þýskir ráðamenn geri allt eins ráð fyrir því að setja meira fé inn í fyrirtækið á næsta ári. Talsmenn þýsku stjórnarinnar segja þessar fréttir aðeins byggja á vangaveltum.

Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, hefur áður sagt að félagið komist í gegnum næsta ár með það fjármagn sem félagið ræður yfir í dag.