Norwegian selur ennþá flug til Íslands

Staða Norwegian er það tvísýn að forstjóri félagsins hefur viðurkennt að það komist ekki í gegnum veturinn án viðbótar fjármagns. Frá og með febrúar er félagið með á boðstólum flug frá Íslandi til þriggja áfangastaða.

MYND: NORWEGIAN

Norwegian var hefur verið stórtækt í Íslandsflugi síðustu ár og ekkert flugfélag flutti jafn marga milli Íslands og Spánar þegar allt stöðvaðist vegna Covid-19. Upphaflega flaug norska lággjaldaflugfélagið hingað aðeins frá Ósló en spreytti sig líka ferðum frá London, Róm og Stokkhólmi.

Fjárhagsstaða Norwegian hefur hins vegar lengi verið erfið og í vikunni sóttu stjórnendur þess eftir einskonar greiðsluskjóli fyrir dótturfélög fyrirtækisins á Írlandi. Á sama tíma hefur Norwegian dregið saman seglin og fækkað flugferðunum til og frá Noregi.

Áfram er þó gert ráð fyrir áætlunarferðum á vegum Norwegian frá Keflavíkurflugvelli í byrjun næsta árs. Bæði til Alicante og Barcelona á Spáni og líka til Óslóar samkvæmt bókunarsíðu flugfélagsins.

Sú fjárhagslega endurskipulagning sem nú er hafin hjá Norwegian á Írlandi gæti hins vegar tekið allt að fimm mánuði. Og þar nægir félaginu ekki að fá afskrifaðar skuldir því einnig þarf að koma inn aukið hlutafé. Lausarfjárstaða félagsins er nefnilega tæp eins og fram hefur komið í máli forsvarsmanna fyrirtækisins.

Þessi grein er öllum opin en flestar greinar sem Túristi birtir eru aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.