Rannsókn á greiðslum Airbnb til Íslands er ekki lokið

Íslendingar þénuðu þjóða mest á útleigu á vegum Airbnb. Sérfræðingar skattrannsóknarstjóra skoða nú greiðslur fyrirtækisins til íslenskra leigusala.

reykjavik Tim Wright
Í Þingholtunum hefur úrval af gistirými hjá Airbnb verið mikið. Mynd: Tim Wright / Unsplash

Það var í lok sumars sem skatt­rann­sókn­ar­stjóri hóf greiningu á gögnum frá Airbnb yfir þær greiðslur sem runnu hingað til lands vegna útleigu íbúða á árunum 2015 til 2018. Alls námu greiðsl­urnar 25,1 millj­arði króna líkt og fjallað var um í Kjarnanum í ágúst sl.

Greiningarvinna sérfræðinga skattrannsóknarstjóra stendur ennþá yfir og gæti tekið þónokkurn tíma í viðbót samkvæmt svari embættisins við fyrirspurn Túrista.

„Það er ekki er hægt að segja til um það á þessu stigi hvenær þeirri vinnu verður lokið. Ólíklegt má þó telja að það verði fyrr en á fyrsta fjórðungi nýs árs. Framhald málsins mun síðan óhjákvæmilega ráðast af niðurstöðu greiningarvinnunnar,“ segir jafnframt í svarinu.

Sem fyrr segir nær rannsóknin til greiðslna á árinum 2015 til 2018. Árið 2017 voru meðaltekjur íslenskra leigusala hjá Airbnb um 1,2 milljón króna á þáverandi gengi. Engin önnur þjóð græddi álíka á útleigu húsnæðis hjá bandarísku gistimiðluninni samkvæmt úttekt fyrirtækisins.

Á hinum Norðurlöndunum voru árstekjur leigusala Airbnb innan við fjórðungur af því sem þekktist hér á landi eins og Túristi fjallaði um á sínum tíma.