Rekstrarvandi breytist í skuldavanda

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF.

Norðmaðurinn Petter Stordalen rekur hátt í tvö hundruð hótel í Skandinavíku og Finnlandi. Hann á líka stóran hlut í stærstu ferðaskrifstofu Svíþjóðar og er stórtækur í veitingageiranum. Hann telur ljóst að það stefni í blóðbað í þessum geirum á næsta ári vegna skuldanna sem safnast hafa upp nú í heimsfaraldrinum. Þessi sýn Stordalen var til umfjöllunar í grein Túrista um helgina.

„Þarna er settur fingur á skuldavandann sem er að verða til,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, spurður hvort honum þyki norski hóteljöfurinn draga upp of dökka mynd af ástandinu.

„Við erum búin að vera að horfa á það síðan í vor að lánalausnir og frestunarúrræði, t.d. á leigu og opinberum gjöldum, geta bara verið lausnir á skammtímavanda. Það sem gerist núna er að það er verið að koma til móts við vandann á rekstrarreikningum fyrirtækjanna með ýmsum hætti en á meðan hleðst samt upp vandi á efnahagsreikningum þeirra. Rekstarvandi breytist því í skuldavanda,“ útskýrir Jóhannes Þór.

Hann segir það hafa verið alveg ljóst þegar ástandið hófst fyrir alvöru í vor að taka þyrfti á skuldavandanum með einhverjum hætti líka. Hin efnahagslegu eftirsköst muni sitja eftir í pípunum þegar Covid-19 verður hægt að hamla ferðalögum milli landa.

„Það hversu hröð viðspyrnan verður í ferðaþjónustu og efnahagslífi þjóða almennt mun ráðast af því hversu vel tekst að hreinsa þann vanda svo að hann hamli ekki nauðsynlegum vexti. Það skiptir þeim mun meira máli eftir því sem ferðaþjónusta er stærri hluti af viðspyrnuafli efnahagslífsins,“ segir Jóhannes Þór.

Þessi grein er öllum opin en meirihluti frétta Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.