Seðlabankinn dregur úr væntingum um fjölda ferðamanna

Hingað koma 750 þúsund erlendir ferðamenn á næsta ári ef spá Seðlabankans rætist. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Það stefnir í að þróunin í ferðaþjónustunni á seinni helmingi ársins verði óhagstæðari en gert var ráð fyrir í ágústspá Seðlabankans. „Innlend flugfélög drógu örar úr starfsemi og hraðar dró úr kortaveltu erlendra ferðamanna þegar smitum tók að fjölga hér og í viðskiptalöndunum,“ segir í Peningamálum Seðlabankans sem komu út í morgun.

Hér er greinilega vísað til mikils samdráttar hjá Icelandair enda er það eina íslenska flugfélagið sem stundar alþjóðaflug ef frá eru taldar ferðir til Grænlands og Færeyja.

Í Peningamálum Seðlabankans segir jafnramt að spá um fjölda ferðamanna á næsta ári hafi verið lækkuð úr einni milljón ferðamanna og niður í 750 þúsund. Árið 2022 eru svo gert ráð fyrir tvöföldun eða 1,5 milljón erlendra ferðamanna.

„Mikil óvissa er um horfur í ferðaþjónustu og velta þær m.a. á því hvenær horfið verður frá hömlum á ferðalög milli heimsálfa, einkum milli Evrópu og Norður-Ameríku. Bandaríkjamenn voru fjölmennasti hópur ferðamanna sem hingað komu áður en faraldurinn hófst eða um fimmtungur þeirra. Ekki er gert ráð fyrir að ferðalögum fjölgi að ráði fram á annan fjórðung næsta árs en þá er talið að ferðaþjónusta taki við sér þegar farsóttin rénar og dregið verður úr takmörkunum á ferðalögum milli landa,“ segir í útskýringum Seðlabankans.

Líkt og fram kom í grein Túrista nýverið þá má gera ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi aukist þónokkuð ef vægi Icelandair á Keflavíkurflugvelli dregst saman. Þó ekki vegna minnkandi umsvifa félagsins heldur vegna aukins Íslandflugs erlendra flugfélaga.

Þessi grein er öllum opin en meirihluti frétta Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.