Setja stefnuna á nýjar sólarstrendur næsta sumar

Hjá ferðaskrifstofunni Vita verður úr fleiri áfangastöðum að velja næsta sumar.

Benalmadena ströndin við Costa del Sol. MYND: VITA

Costa del Sol á Spáni og Albufeira í Portúgal eru meðal þeirra staða sem bætast við sumarprógramm VITA á næsta ári. Auk þess ætlar ferðaskrifstofan að bjóða upp á reisur til Lanzarote sem er fjórða stærsta eyjan í Kanaríeyjaklasanum. Ferðirnar þangað verða viðbót við reglulegar brottfarir á vegum Vita til Tenerife og Gran Canaria eða Kanarí.

Gríska eyjan Krít verður einnig á boðstólum næsta sumar hjá VITA en þangað hefur ferðaskrifstofan flogið síðustu sumar í samfloti með öðrum ferðaskrifstofum. Að sögn Þráins Vigfússonar, framkvæmdastjóra VITA, þá verður eitthvað af sætum til Krítar seld til keppinautanna. Í boði verða tíu og ellefu daga ferðir.

Vita er hluti af Icelandair Group og flýgur farþegum sínum suður á bóginn með Icelandair. Það á líka við um ferðirnar til Alicante flugið þangað hefst í byrjun mars.

Í tilkynningu frá VITA segir að í ljósi aðstæðna verði viðskiptavinum boðið upp á sérstaka VITA-vernd sem tryggir mikinn sveigjanleika og öryggi. Farþegar greiða aðeins fjörutíu þúsund króna staðfestingargjald við bókun. Það fæst svo endurgreitt með allt að sex vikna fyrirvara og eins verður hægt að breyta ferðadegi þremur vikum fyrir brottför.

Ferðir sem felldar eru niður fást endurgreiddar innan 14 daga en eins getur fólk fengið inneignarbréf.