Stefnt að kaupum Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri Heimsferða

Úrval-Útsýn og Heimsferðir verða hluti af Ferðaskrifstofu Íslands gangi viðskiptin eftir.

Skjámynd af heimasíðu Úrval-Útsýn.

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um kaup Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri ferðaskrifstofunnar Heimsferða.  Kaupverð verður greitt með hlutum í Ferðaskrifstofu Íslands samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að kaupin eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og einnig gerð endanlegs kaupsamnings. Stefnt er að því að klára hann í næstu viku en ætlunin er að ferðaskrifstofurnar verði reknar sem sérstakar einingar innan Ferðaskrifstofu Íslands.

Ferðaskrifstofa Íslands rekur Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir og er ein stærsta ferðaskrifstofa landsins þegar kemur að skipulagningu utanlandsferða fyrir Íslendinga. Á þeim markaði eru Heimsferðir einnig umsvifamiklar.

„Eins og kunnugt er hefur COVID-19 faraldurinn haft mikil áhrif á rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu.  Ferðaskrifstofur hafa almennt fundið mikið fyrir þessu í sínum rekstri. Það er ljóst að með þessari sameiningu næst fram hagræðing sem mun gera þessum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi aftur eins fljótt og mögulegt er með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni. Þar er jafnframt tekið fram að markmiðið sé að bjóða landsmönnum víðtæka þjónustu og fjölda spennandi áfangastaða á næstu misserum á hagkvæmum kjörum.  

Ferðaskrifstofa Íslands er í eigu Pálma Haraldssonar en Arion banki á Heimsferðir. Bankinn tók ferðaskrifstofuna yfir í uppgjöri sínu við Andra Má Ingólfsson í fyrra. Nýverið fór móðurfélag Heimsferða í þrot og keypti bankinn Heimsferðir út úr þrotabúinu líkt og Túristi hefur fjallað um.