Stöðva rekstur ferðaskrifstofa Arion banka í Svíþjóð og Noregi

Solresor og Solia voru systurfélög íslensku ferðaskrifstofunnar Heimsferða. Arion banki hefur nú keypt rekstur íslensku ferðaskrifstofunnar út úr þrotabúi dansks félags sem var áður í eigu bankans.

Í uppgjöri sínu við Andra Má Ingólfsson í fyrra þá tók Arion banki yfir rekstur sjö norrænna ferðaskrifstofa sem þá heyrðu undir danska félagið TravelCo Nordic. Það félag var hins vegar lýst gjaldþrota undir lok síðasta mánaðar og var þá ennþá í eigu íslenska bankans. Arion keypti svo Heimsferðir og vörumerki dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo tours í Danmörku út úr þrotabúi TravelCo Nordic.

Solresor í Svíþjóð og Solia í Noregi urðu eftir í hinu gjaldþrota móðurfélagi og nú segir á heimasíðum ferðaskrifstofanna tveggja að reksturinn hafi stöðvast. Viðskiptavinum er vísað á danska ferðaábyrgðasjóðinn varðandi endurgreiðslur á ferðum en líkt og Túristi hefur fjallað um þá gæti fall TravelCo Nordic kostað danska skattgreiðendur um 2,2 milljarða íslenskra króna. Þetta er meira tjón en danski ábyrgðasjóðurinn hefur nokkru sinni áður orðið fyrir.

Staða Solresor hefur vakið athygli sænskra fjölmiðla og þannig hefur ríkisútvarpið í Svíþjóð greint frá gjaldþroti Travelco Nordic nú í morgunsárið. Það hafa líka sænsk dagblöð gert.

Sem fyrr segir keypti Arion banki Heimsferðir út úr danska þrotabúinu og heyrir íslenska ferðaskrifstofan nú undir Sólbjarg, dótturfélag bankans. Stjórnarformaður þess er Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion.