Stöðva viðskipti með bréf Norwegian

norwegian vetur

Öll viðskipti með hlutabréf í Norwegian hafi legið niðri í kauphöllinni í Ósló frá því klukkan 12.39 að íslenskum tíma. Í tilkynningu frá kauphöllinni segir að þetta hafi verið gert í kjölfar upplýsingagjafar frá flugfélaginu sjálfu.

Gengi bréfa í Norwegian er núna 47 norskir aurar á hvern hlut og hafði gengið lækkað um 0,3 prósent í dag.

Í morgun var tilkynnt að flugvélaleigan Aercap hefði selt umtalsverðan hluta af sínum bréfum í Norwegian og eignahluturinn kominn undir tíu prósent.

Fjárhagsstaða Norwegian er það veik að forstjóri félagsins sagði á fundi með blaðamönnum nýverið hann gæti ekki útilokað gjaldþrot. Frá því á mánudaginn í síðustu viku hefur Norwegian fellt niður fimmtán hundruð innanlandsflug frá Ósló. Allt flugferðir sem voru upphaflega á dagskrá í ár.

Norwegian hefur einnig verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli og var það flugfélag sem flutti flesta milli Íslands og Spánar. Félagið hefur líka veitt Icelandair mikla samkeppni í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Þessi grein er öllum opin en meirihluti frétta Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.