Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu

Áhrif opnunar nýrra flugleiða er meðal þess sem meta á í nýju þjóðhagslíkani fyrir ferðaþjónustuna. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Ferðamálastofa hefur samið við Hagrannsóknir um gerð þjóðhagslíkans fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Í frétt á vef stofnunarinnar segir að fyrirhugað sé að tengja líkanið við fyrirliggjandi þjóðhagslíkön fyrir hagkerfið í heild og nýta það til mikilvægra högg- og aðgerðagreininga fyrir stjórnvöld þegar miklar sveiflur verða í rekstrarskilyrðum ferðaþjónustu og annarra meginatvinnuvega þjóðarinnar. Þá er líkaninu ætlað að nýtast við gerð hagspáa. 

„Áfallið sem dunið hefur á þjóðarbúinu í ár hefur sýnt með skýrum hætti þörfina fyrir betri upplýsingar og greiningartæki til að gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að bregðast við á réttan, tímanlegan og skilvirkan hátt þegar áföll verða og styðja með öflugum hætti við enduruppbyggingu í kjölfar þess,“ segir á fréttinni.

Nýja líkanið á að hafa alla venjulega getu þjóðhagslíkana, þar á meðal annars að meta áhrif ferðaþjónustunnar á efnahagslífið og rekja þjóðhagsleg áhrif breytinga í aðstæðum ferðaþjónustunnar á greinina sjálfa og efnahagslífið í heild sinni. Dæmi um þess háttar er núverandi krísa vegna útbreiðslu Covid-19, brottfall flugfélaga og eins tilkoma stórra flugleiða.