Uppbygging við Goðafoss hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Árleg umhverfisverðlaun Ferðamálastofu koma að þessu sinni í hlut Þingeyjarsveitar.

Við Goðafoss. MYND: Richard Dorran / UNSPLASH

„Goðafoss í Þingeyjarsveit á sér merka sögu og er einn af stórkostlegustu fossum landsins. Hann er formfagur og myndrænn en klettar á skeifulaga fossbrúninni greina fossinn í tvo meginfossa sem steypast fram af hraunhellunni skáhallt á móti hvor öðrum. Á ársgrundvelli er áætlað að um 500 þúsund manns heimsæki staðinn,“ segir í tilkynningu sem Ferðamálastofa sendi frá sér í morgun.

Tilefnið er afhending umhverfisverðlauna stofnunnarinnar sem að þessu koma í hlut Þingeyjarsveitar fyrir uppbyggingu innviða við Goðafoss. Sveitarfélagið hefur staðið fyrir framkvæmdum þar síðustu ár og hefur verkefnið hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða.

„Verkefnið var afar umfangsmikið og fól í sér endurbætur á umhverfi Goðafoss beggja megin til að vernda viðkvæma náttúru, bæta ásýnd staðarins og tryggja öryggi ferðamanna. Mjög vel var að verki staðið þar sem heimamenn og fagaðilar unnu náið saman allan tímann til að skapa umhverfi sem bæði er aðgengilegt og öruggt fyrir ferðamanninn. Útsýnið að fossinum er óhindrað og hægt er að skoða hann allt árið,“ segir í tilkynningu.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því í 26. sinn sem þau eru afhent. Þau eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd.