Von á nýrri reglugerð varðandi skimun við landamæri

Sóttvarnarlæknir og verkefnahópur á vegum stjórnvalda þurfa fljótlega að skila inn tillögum varðandi skimanir á þeim sem koma til landsins.

Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd: Isavia

Ný reglugerð um skimanir við landamærin þarf að taka gildi þann 1. desember næstkomandi. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis, á upplýsingafundi almannavarna nú fyrir hádegi.

Þar sagðist Þórólfur þurfa að koma með tillögur að nýju fyrirkomulagi á skimunum við landamærin og það eigi líka sérstakur verkefnahópur á vegum stjórnvalda að gera.

Sóttvarnarlæknir ítrekaði að núverandi fyrirkomulag hafi komið í veg fyrir að mörg smit hafi komist inn í landið. „Ég tel að framtíðarskipulag á skimun á landamærum verði að taka mið af þessu,“ sagði Þórólfur að lokum.