86 prósent færri farþegar

Þota SAS við Arlanda flugvöll í Stokkhólmi. Mynd: Arlanda flugvöllur

Það voru 331 þúsund farþegar sem nýttu sér ferðir SAS í nóvember. Samdrátturinn frá sama tíma í fyrra nemur 86 prósentum sem er meiri niðursveifla en var í rekstri félagsins í haust. Auknar ferðatakmarkanir eru helsta ástæðan fyrir þessari þróun nú byrjun vetrar samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Að jafnaði var rétt um fjórða hvert sæti í þotum félagsins skipað farþegum í nóvember sem er talsvert lakari nýting en í október.

SAS, sem er stærsta flugfélag Norðurlanda, dró saman framboð sitt í nóvember um 74 prósent miðað við í fyrra. Samdrátturinn nemur fimmtungi þegar horft er til október sl.