Aðstoðarforstjórinn í fyrsta MAX flugið

Ein af MAX þotum American Airlines. Mynd: American Airlines

Hinar umtöluðu Boeing MAX þotur eru komnar í notkun á ný vestanhafs því í dag var komið að fyrsta áætlunarflugi American Airlines með þess háttar þotu síðan í mars í fyrra.

Ferðinni var heitið frá Miami til New York og um borð var aðstoðarforstjóri flugfélagsins, Robert Isom. Hann flýgur svo aftur með þotunni til Flórída á morgun.

Kyrrsetningu MAX þotanna var aflétt í Bandaríkjunum í síðasta mánuði og búist er við að evrópsk flugmálayfirvöld geri slíkt hið sama fljótlega eftir áramót.

Flugáætlun Icelandair gerir ráð fyrir að MAX þoturnar verði farnar að fljúga með farþega félagsins í mars.