Akureyri-Rotterdam næsta sumar

Voigt Travel ætlar að bjóða upp á beint flug frá Hollandi til Akureyrar á mánudögum í sumar. Hins vegar ætlar ferðaskrifstofan að bíða með vetrarferðir norður fram í febrúar 2022. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Ekkert verður af fyrirhuguðum flugferðum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel í vetur. Áætlun gerði ráð fyrir tíu flugferðum frá Amsterdam til Akureyrar í febrúar og mars 2021, en vegna heimsfaraldurs Covid-19 munu þær falla niður. Í frétt á vef Markaðsstofu Norðurlands segir að nýgengi smita í Hollandi og víðar á meginlandi Evrópu sé enn mjög hátt og miklar takmarkanir á ferðalögum fólks.

Voigt Travel mun þess í stað einbeita sér að sölu ferða næsta sumar, en stefnt er að vikulegum flugferðum frá 7. júní til loka ágúst. Þá hefst Íslandsferðin á flugvellinum í Rotterdam en ekki Amsterdam. Það er sama fyrirkomulag og Voigt travel hafði á boðstólum sumarið 2019 og þá bauðst Norðlendingum líka að kaupa staka farmiða til Hollands á vef flugfélagsins Transavia.

Þess háttar farmiðasala er þó ekki hafin á vef flugfélagsins. Voigt travel hefur uppi áform um beint flug til Akureyrar frá Hollandi næsta vetur eða frá febrúar 2022.