Bæta Flórídaferðum við hátíðardagskrána

Stjórnendur Icelandair sjá tækifæri í flugi héðan til Orlando á Flórídaskaga í kringum jól og áramót.

Icelandair ætlar að fljúga aftur til Orlandó fyrir jólin. Mynd: Ferðamálaráð Orlando

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair þá stóð ekki til að bæta þessum ferðum til Flórída við jóladagskrá flugfélagsins. Ferðirnar hafa nú verið felldar niður.

Þegar Icelandair kynnti jóla- og áramótadagskrá sína í síðustu viku þá var ekki gert ráð fyrir flugferðum héðan til bandarísku borgarinnar Orlando. Sú borg og nágrenni hennar hefur aftur á móti notið vinsælda hjá Íslendingum og Evrópubúum yfir vetrarmánuðina.

Til marks um það þá flutti Icelandair um fjögur þúsund manns til Orlando í desember í fyrra. Og að jafnaði voru níu af hverjum tíu sætum skipuð farþegum. Það var tölurvert hærra hlutfall en mánuðinn á undan.

Nú hefur Icelandair sett í sölu, með stuttum fyrirvara, flugferðir til Orlando í kringum hátíðarnar. Í boði eru tvær brottfarir fyrir jól og jafn margar eftir áramót.

Flugmiði báðar leiðir frá Keflavíkurflugvelli kostar 128 þúsund krónur með einni ferðatösku. Sá sem flýgur í hina áttina, frá Orlando til Íslands, borgar nokkru minna eða nærri 75 þúsund krónur.

Leiga á bílaleigubíl yfir jól og áramót á Flórída kostar svo álíka mikið.