Biðja flugfarþega um að mæta þremur tímum fyrir brottför

Búist er við að fleiri ferðamann fari þar um Keflavíkurflugvöll næstu daga ne verið hefur að jafnaði síðustu vikur og mánuði. Í tilkynningu frá Isavia eru farþegar á leið úr landi tiltekna álagsdaga, þ.e. 18. og 19. desember og 2. og 3. janúar, hvattir til að mæta í innritun og öryggisleit 3 klukkustundum fyrir brottför.

„Farþegar eru einnig hvattir til að gæta vel að almennum sóttvörnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og vera með grímur. Standa með handspritti má finna víða í flugstöðinni,“ segir í tilkynningunni. Farþegar eru jafnframt hvattir til að innrita sig í flug á netinu áður en haldið er út á flugvöll og nýta sjálfsafgreiðslustöðvar í brottfararsal.

Þá er komufarþegum bent á einhverja daga um hátíðar kann að myndist bið við skimunarbása Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á flugvellinum. Komi til þess verður farþegum hleypt í hópum úr flugvélum inn í flugstöðina til að stýra álagi.

Þjónusta verslunar- og veitingaaðila í flugstöðinni hefur verið skert síðustu vikur og mánuði vegna færri flugferða sökum Covid-19 faraldursins. Aukið verður við þjónustu þá daga sem mest verður um að vera í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um hátíðarnar og má finna nánari upplýsingar um það á vef Keflavíkurflugvallar.

Í tilkynningu Isavia segir að almannavarnir vilji beina því til fólks, sem á von á ættingjum og vinum til landsins fyrir og um hátíðarnar, að sækja ekki komufarþega á Keflavíkurflugvöll.