Ekkert verður af fluginu til Orlandó

orlando skilti 860


Fjórum flugferðum til Orlandó á Flórída var bætt við sérstaka jóla- og áramótadagskrá Icelandair líkt og Túristi greindi frá í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair var hins vegar ekki ætlunin að setja þessar ferðir inn á tímabundna flugáætlun. Og nú hefur verið tekin formleg ákvörðun um að fella þær niður.

Að sögn Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, þá hafa þessi flug verið inn í bókunarkerfi félagsins um langt skeið. Farþegar sem áttu bókað áttu þá að geta notið vafans ef eitthvað myndi breytast fyrir jól varðandi ferðatakmarkanir. Eftirspurn eftir þessum ferðum hefur hins vegar ekki verið nein.

„Við höfum verið í samskiptum við þennan hóp farþega til að upplýsa þau um óvissuna og boðið þeim að breyta ferðaáætlun sinni sem flestir hafa gert nú þegar,“ segir Ásdís.