Færri smit þar sem íslensku ferðamennirnir verða

Orotava dalurinn á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Tvær af þremur stærstu ferðaskrifstofum landsins hafa hætt við jólaferðir sínar til Tenerife en Vita heldur sínu striki. Þar á bæ var upphaflega gert ráð fyrir tveimur ferðum til Tenrife fyrir jól og einni til Kanarí. Nú hafa ferðirnar þrjár verið sameinaðar í eina brottför.

Fjöldi smita á Tenerife hefur hins vegar verið á uppleið en Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Vita, bendir á að þau séu langflest á norðurhluta eyjunnar eða við höfuðborgina Santa Cruz. Þar eru smitin tíu sinnum fleiri en við Adeje og á Arona, þar sem allir farþegar Vita munu dvelja.

Á Kanarí er útbreiðsla Covid-19 mun minni og sérstaklega er lítið um smit á suðurhluta eyjunnar þar sem gististaðir Vita eru að sögn Þráins.

Fyrir viku síðan boðuðu yfirvöld á Tenerife hertar aðgerðir á eyjunni til að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunnar. Ætlunin er að þær takmarkanir sem þá voru boðaðar verði í gildi til 19. desember.