Farþegum Wizz Air fækkaði um 85 prósent

Ungverska lágfargjaldaflugfélagið Wizz Air hefur síðustu ár verið stórtækt í Íslandsflugi og hóf félagið til að mynda flug hingað frá bæði Ítalíu og Þýskalandi til Íslands í sumar. Stjórnendur Wizz Air blésu líka til sóknar á fleiri mörkuðum í vor þegar útlit var fyrir að ferðageirinn væri að rétta úr sér.

Nú í haust hafa ferðatakmarkanir aftur á móti verið hertar á ný og þotur Wizz Air því ekki eins oft á flugi. Það endurspeglast í nýjum farþegatölum félagsins fyrir nóvember því samkvæmt þeim þá fækkaði farþegunum um 85 prósent í nóvember. Sætanýtingin féll á sama tíma úr 92 prósentum í 68 prósent.

Þar sem þotur Wizz Air eru ekki eins þéttsetnar og áður þá jókst losun gróðurhúsalofttegunda, á hvern farþega, um 21 prósent í síðasta mánuði.

Wizz Air hóf innanlandsflug í Noregi nú í haust og býður nú upp á 15 ólíkar flugleiðir þar í landi.

Þessi grein er öllum opin en stór hluti ferðafrétta Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þó keypt áskrift