Ferðaskrifstofan skilaði síðast hagnaði árið 2010

Skjámynd af heimasíðu TravelCo Nordic.

Ein af þeim sjö ferðaskrifstofum sem Arion banki tók yfir í uppgjöri sínu við Andra Má Ingólfsson í fyrra var Solia í Noregi. Nú er norska ferðaskrifstofan gjaldþrota og í viðtali við Dagens Næringsliv segir skiptastjóri Solia að reksturinn hafa verið í mínus allt frá árinu 2010. Heildartapið síðastliðinn áratug nemur um 660 milljónum íslenskra króna miðað við gengi krónunnar í dag.

Solia var hluti af Primera Travel Group sem var alfarið í eigu Andra Más en í kjölfar falls Primera Air, haustið 2018, þá flutti hann eignarhaldið yfir í hið danska TravelCo Nordic. Það félag var lýst gjaldþrota í október sl. og var þá ennþá í eigu Arion banka.

Bankinn keypti rekstur Heimsferða út úr þrotabúinu og líka vörumerki dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo Tours.

Á heimasíðu Solia er viðskiptavinum bent á að þeir geti óskað eftir endurgreiðslum frá danska ferðaábyrgðasjóðnum. En líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá er útlit fyrir að gjaldþrot TravelCo Nordic muni kosta sjóðinn allt að þrjá milljarða króna. Það er mesta högg sem ábyrgðasjóðurinn hefur orðið fyrir og er málið komið á borð ríkislögmanns í Danmörku.