Flugfélög gætu misst illa nýtt lendingarleyfi

Mynd: Brent Cox / Unsplash

Allt frá því að heimsfaraldurinn skall á þá hafa flugfélög fengið undanþágu frá lágmarksnýtingu á lendingarleyfum. Almenna reglan kveður nefnilega á um að flugfélög noti svokölluð slott í að lágmarki átta af hverjum tíu tilvikum. Flugumferðin hefur hins vegar dregist mun meira saman en þessu hlutfalli nemur.

Og í ljósi óvissunnar fyrir komandi sumarvertíð þá hafa alþjóðasamtök flugfélaga og flugvalla stutt að þessi undanþága verði framlengd á evrópskum flugvöllum út næsta sumar.

Nú herma hins vegar heimildir Reuters fréttastofunnar að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætli ekki að verða við því. Í staðinn munu ráðamenn ESB leggja til að nýtingarhlutfallið verði lækkað í fjörutíu prósent.

Líkt og Túristi fór yfir fyrr í vikunni þá sótti Icelandair um fleiri afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli næsta sumar en dæmi eru um. Nú er að sjá hversu margar umsóknir félagið staðfestir ef krafa verður gerð um fjörutíu prósent nýtingu.