Gjaldfrjáls landamæraskimun kynnt á fundi norrænna samgönguráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á fundi Norðurlandaráðs í október í fyrra. Fundur norrænu samgönguráðherranna í gær fór fram með rafrænum hætti. Mynd: Norðurlandaráð

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók síðdegis í gær þátt í fundi norrænna samgönguráðherra um heimsfaraldurinn og áhrif hans á samgöngur á Norðurlöndum. 

Á fundinum greindi ráðherra frá því að tvöföld skimun við íslensku landamærin, með fimm daga sóttkví, hafi reynst Íslendingum mikilvæg í því skyni að halda aftur af því að smit berist óhindrað inn í landið. Þetta kemur fram í frétt á vef samgönguráðuneytisins.

Þá kynnti Sigurður Ingi kollegum sínum frá því að skimun verði gjaldfrjáls á landamærunum, frá og með deginum í dag, 1. desember. Markmiðið væri að sem allra flestir veldu þá leið.

Á fundinum fjallaði Sigurður Ingi jafnframt um mikilvægi millilandaflugs og flugþjónustu fyrir íslenskt samfélag og efnahag og því væru markvissar og samræmdar aðgerðir nauðsynlegar til að koma flugsamgöngum og ferðaþjónustu til fyrra horfs. Einnig var því komið á framfæri að Ísland hefði aldrei lokað landamærum að fullu en tæki þátt í aðgerðum þjóða á Schengen-svæðinu um takmarkanir á flugi. 

„Það kom fram hjá norrænu ráðherrunum að ríkisstjórnir þeirra hefðu glímt við margvíslegan vanda í samgöngum við að halda uppi nauðsynlegri þjónustu við flutning vöru og farþega á milli landa. Tekist hafi að leysa úr ýmsum vanda en margt væri óleyst. Ríkin hefðu lagt fram verulega fjármuni í að halda uppi samgöngum og m.a. gerðu Norðmenn ráð fyrir að leggja tvo milljarða norskra króna til flugs á næsta ári. Þá voru norrænu ríkin að styrkja lámarksáætlunarflug til staða á landsbyggðinni,“ segir jafnframt í frétt samgönguráðuneytisins.

Norrænu ráðherranir sjá tækifæri til þess að vinna að rafvæðingu í flugi og vinna er komin af stað í sumum ríkjunum í þá veru. Ráðherrarnir voru sammála um að eiga samstarf um þetta málefni.