Halda áfram að bæta við hlutum í Icelandair

Eigendur heildverslunarinnar Johan Rönning, hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, eiga í dag 659 milljón hluti í Icelandair Group. Það jafngildir 2,32 prósenta hlut samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa samsteypunnar.

Hjónin voru skráð fyrir 252 milljón hlutum eftir útboð Icelandair í haust og hafa þau þá bætt við sig 407 milljón hlutum síðan þá.

Virði bréfanna er rétt rúmur milljarður króna því gengi Icelandair, í lok viðskiptadags í dag, var 1,6 króna á hvern hlut.

Það er 78 prósent hærra verð en fékkst fyrir bréf Icelandair áður en tilkynnt var um bóluefni Pfizer/BioNTech í byrjun nóvember. Til samanburðar hafa hlutabréf í Finnair hækkað um 71,5 prósent á síma tíma og hlutbréf SAS hafa nærri tvöfaldast í verði eða um 98,5 prósent.

Flugáætlun Icelandair hefur dregist nokkuð meira saman en raunin hefur verið hjá Finnair og SAS.