Helmingurinn vill ekki fljúga með Boeing MAX

Starfsmenn American Airlines gera nú MAX þoturnar klárar fyrir farþegaflug á ný. Mynd: American Airlines

Þegar ástæður kyrrsetningar Boeing MAX þotanna eru rifjaðar upp fyrir fólki þá segist fimmtíu og sjö prósent aðspurðra ekki líklegt til að fljúga með Boeing MAX þotu. Þrjátíu og sjö prósent svarenda ætlar að bíða í alla vega hálft ár með að setjast upp í þess háttar flugvél.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar á vegum Reuters í Bandaríkjunum en á morgun er fyrsta áætlunarflug American Airlines með Boeing MAX þotu á dagskrá. Flogið verður milli New York og Miami.

Talsmenn flugfélagsins hafa gefið út að enginn verði neyddur til að fljúga með þotunum og farþegum standi til boða ferðir með öðrum flugvélum félagsins ef þeir kjósa það heldur.

Það var í mars í fyrra sem Boeing MAX þotur voru kyrrsettar um heim allan í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið.

Flugmálayfirvöld vestanhafs afléttu kyrrsetningu þotanna um miðjan nóvember og búist er við að evrópsk flugmálayfirvöld geri slíkt hið sama um miðjan janúar.

Icelandair gerir ráð fyrir MAX þotunum í sína flugáætlun í vor og sumaráætlun félagsins gerir ráð fyrir að eingöngu þess háttar flugvélar verði nýttar í áætlunarferðir til ellefu borga.

Þess ber að geta að rétt um fjórir af hverjum tíu svarendum könnunar Reuters mundu eftir flugslysunum tveimur sem urðu til þess að Boeing MAX þotur voru kyrrsettar fyrir nærri tveimur árum síðan.