Icelandair lendir á nýjum stað í Berlín

Frá Berlin Brandenburg flugvellinum. Mynd: Berlin Brandenburg

Allt frá því að Icelandair hóf að fljúga til Berlínar í lok árs 2017 þá hafa þotur félagsins tekið stefnuna á Tegel flugvöll í vesturhluta borgarinnar. Ferðir Icelandair hafa hins vegar legið niðri síðustu fjóra mánuði og nú er búið að loka Tegel.

Af þeim sökum lenti þota Icelandair við hinn nýja Berlin-Brandenburg flugvöll í austurhluta þýsku höfuðborgarinnar nú klukkan ellefu í morgun. Þetta var fyrsta ferð félagsins til Berlínar síðan 28. ágúst en sú næsta er á dagskrá 3. janúar.

Nú er Icelandair eina flugfélagið sem flýgur milli Íslands og þýsku höfuðborgarinnar. Framboðið var töluvert meira hér á árum áður þegar allt að þrjú félög sinntu þessari flugleið.