Jólaferðunum til Spánar fækkar

Það hafa verið gerðar breytingar á jólafluginu til Spánar frá Keflavíkurflugvelli.

Orotava dalurinn á Tenerife. MYND: FERÐAMÁLARÁÐ SPÁNAR

Ferðaskrifstofunnar Vita og Aventura hafa báðar fellt niður ferðir til Spánar fyrir jólin. Hjá þeirri fyrrnefndu stóð til að bjóða upp á tvær brottfarir til Tenerife og eina til Las Palmas á Kanarí en nú hafa allar þrjár ferðirnar verið sameinaðar í eitt flug.

Lagt verður í hann 22. desember í breiðþotu Icelandair sem tekur 262 farþega og verður fyrst flogið til Tenerife og þaðan yfir til Las Palmas. Að sögn Þráins Vigfússonar, framkvæmdastjóra Vita, þá er örfá sæti laus í ferðina.

Ferðaskrifstofan Aventura, sem eru í eigu Andra Más Ingólfssonar, var einnig með á boðstólum jólaferð til Spánar, nánar tiltekið til Alicante. Ekki er lengur hægt að bóka sæti í þá ferð á heimasíðu Aventura og Túristi hefur ekki fengið svör frá Andra Má Ingólfssyni, eiganda ferðaskrifstofunnar, um stöðu mála. Í viðtali við Morgunblaðið þann 16.nóvember sagði Andri að ferðin væri vel bókuð en þota frá Icelandair var leigð í flugið.

Fjöldi Covid-19 smita á Kanaríeyjum hafa verið á niðurleið að undanförnu nema á Tenerife. Á laugardaginn voru því boðaðar hertar aðgerðir á eyjunni sem gilda til 19. desember. Sem fyrr segir er svo von á íslensku ferðafólki til eyjunnar þremur dögum síðar.

TENGDAR GREINAR: 260 þúsund farþegar frá Íslandi til Tenerife