Lítil þátttaka á mikilvægum hluthafafundi Norwegian

Jacob Schram, forstjóri Norwegian.

Viðskipti með hlutabréf norska flugfélagsins Norwegian voru stöðvuð fyrir hluthafafund félagsins sem nú fer fram. Fundurinn hófst klukkan níu að íslenskum tíma og samkvæmt frétt Finansavisen er þátttakan dræm. Fulltrúar tæplega tveggja prósent hlutafjár í félaginu taka þátt.

Á þessum rafræna fundi er þó ætlunin að greiða atkvæði um tillögu stjórnar um hlutafjáraukningu upp á fjóra milljarða norskra króna. Einnig leitar stjórnin heimildar til að óska eftir því að kröfum verði breytt í hlutafé. Það er reyndar ekki nýlunda að sú leið sé farin í félaginu því í vor tóku kröfuhafar Norwegian félagið í raun yfir.

Þá eignuðust flugvélaleigur stóran hlut í flugfélaginu en forsvarsmenn þeirra hafa gefið út að þeir ætli ekki að leggja félaginu til nýtt hlutafé.