Samningur um kaup Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum í höfn

Þrátt fyrir að tvær af stærstu ferðaskrifstofum landsins renni nú saman þá er hlutur þeirra af heildarmarkaðnum vel innan við tíund.

Úrval-Útsýn heyrir undir Ferðaskrifstofu Íslands og það gera nú Heimsferðir líka. Skjámynd af vef Úrval-Útsýn

Gengið hefur verið frá kaupum Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum en viljayfirlýsing um þessi viðskipti var undirrituð í lok nóvember. Kaupverðið var greitt með hlutum í Ferðaskrifstofu Íslands og herma heimildir Túrista að Arion banki, eigandi Heimsferða, fái um þrjátíu prósent hlut í Ferðaskrifstofu Íslands. Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, heldur þá eftir sjötíu prósent hlut í fyrirtækinu.

Ferðaskrifstofa Íslands rekur Úrval-Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir en umsvif Heimsferða hafa verið aðeins meiri. Velta Heimsferða var um fjórir milljarðar króna í fyrra á meðan veltan Ferðaskrifstofu Íslands var um þrír milljarðar.

Kaup Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum hafa ekki ennþá fengið umsögn hjá Samkeppniseftirlitinu en ljóst er að hlutur fyrirtækjanna tveggja á ferðamarkaðnum er lítill þrátt fyrir að þar fari tvær af stærstu ferðaskrifstofum landsins.

Skýringin er sú að stór meirihluti Íslendinga ferðast á eigin vegum. Til marks um það þá flugu samtals 611 þúsund Íslendingar frá Keflavíkurflugvelli í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Vel innan við tíundi hver ferðaðist á vegum Heimsferða og Ferðaskrifstofu Íslands því samtals flugu um fimmtíu þúsund farþegar til útlanda á vegum ferðaskrifstofanna tveggja í fyrra.

Það sést líka á framboði á flugi til Spánar að stór hluti þess er áætlunarflug á vegum flugfélaga. Mun minna fer fyrir leigufluginu og næsta sumar gerir Icelandair ráð fyrir að auka umsvif sín á spænska markaðnum. Félagið flýgur þá í fyrsta sinn áætlunarflug til Tenerife en hingað til hefur flugfélagið eingöngu boðið upp á leiguflug til spænsku eyjunnar. Þá aðallega með farþega systurfélagsins Vita. En forstjóri Icelandair Group, Bogi Nils Bogason, er líka stjórnarformaður Vita.

Líkt og Túristi fór yfir í fréttaskýringu fyrir ári síðan þá eru vísbendingar um að stærstu íslensku ferðaskrifstofunnar hafi ekki verið nægjanlega stórar til að bjóða upp á eigin leiguflug út í heim.

„Íslensku ferðaskipuleggjendurnir eru of litlir. Kaupkraftur þeirra hjá hótelum og flugfélögum er því takmarkaður og við það bætist að vertíðin er frekar stutt,” benti Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nazar, á en sú ferðaskrifstofa bauð upp á Tyrklandsreisur frá Íslandi fyrir nokkrum árum síðan.