SAS tapaði 141 milljarði króna

Hjá skandinavíska flugfélaginu SAS byrjar reikningsárið í nóvember og nú í morgunsárið birti félagið uppgjör sitt fyrir síðustu tólf mánuði. Niðurstaðan var tap upp á 9,3 milljarða sænskra króna eða um 141 milljarð íslenskra króna. Þetta sögulega tap má rekja til áfallsins sem Covid-19 var fyrir reksturinn. Tapið á fjórða ársfjórðungi, ágúst til október, var um 50 milljarðar króna.

Fyrstu mánuðir næsta reikningsárs, sem hófst 1. nóvember sl, verða líka þungir að mati Richard Gustafsson, forstjóra SAS. Í uppgjörinu er haft eftir honum að ómögulegt sé að gefa út afkomuspá við núverandi aðstæður þó nýjustu tíðindi af bóluefni séu jákvæð.

Forstjórinn gerir því ráð fyrir að það muni taka allt næsta ár að koma fluggeiranum í gang á ný og það verði ekki fyrr en árið 2022 sem starfsemin verði með nokkuð eðlilegum hætti. Og svo taki það nokkur ár til viðbótar fyrir eftirspurnina að verða álíka mikla og hún var fyrir heimsfaraldurinn.

Hlutafé SAS var aukið með útboði nú í haust og þar jókst hlutdeild sænska og danska ríkisins umtalsvert eða úr 29 prósentum í nærri 44 prósent. Vægi ríkissjóðanna tveggja er jafn hátt.