Skuldavandi blasir við sex af hverjum tíu fyrirtækjum í ferðaþjónustu

Til Íslands koma 800 þúsund ferðamenn á næsta ári samkvæmt grunnspá KPMG. Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Talsverður fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja eru of skuldsett miðað við rekstrarafkomu eða með of lítið eigið fé til að standa af sér „storminn.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu sem Ferðamálastofa kynnti í dag og unnin er af KPMG.

Í skýrslunni kemur fram að vegna bágborinnar fjárhagsstöðu þá þurfi flest fyrirtæki í atvinnugreininni að auka skuldir sínar eða ganga á eigið fé fram að þeim tímapunkti að ferðamenn taka að streyma til landsins á ný.

„Eftir því sem þetta ástand varir lengur mun fjöldi ósjálfbærra félaga aukast og verður þeim þá ekki bjargað nema með eiginfjár innspýtingu eða öðrum aðgerðum til að létta á skuldsetningu. Sé tekið mið af skuldamargfeldi má búast við því að 1.127 af 1.831 félögum í greiningunni muni glíma við skuldavanda ef tekjuleysi verður viðvarandi fram yfir mitt ár 2021. Gera má því ráð fyrir mikilli fjölgun gjaldþrota á næstu mánuðum,“ segir í skýrslunni.

Þar segir jafnframt að verði áframhald á ferðatakmörkunum þá megi búast við að viðvarandi rekstrartap og skuldasöfnun sé framundan. Sú skuldsetning yrði svo ósjálfbær miðað við það bataferli sem framundan er. Þannig gera greinendur KPMG ráð fyrir því að hingað til lands komi um 800 þúsund ferðamenn á næsta ári. Það er rétt um 39 prósent af fjöldanum árið 2019.