Tryggja rekstrargrundvöll Keahótelanna fram á árið 2022

Fjárhagslegri endurskipulagningu eins stærsta hótelfyrirtækis landsins er lokið. Landsbankinn eignast þriðjungs hlut.

Hótel KEA á Akureyri og Hótel Borg við Austurvöll tilheyra Keahótelunum. Mynd: Keahótelin

Gengið hefur verið frá endurskipulagningu allra skulda Keahótelanna. Er það gert með hlutafjáraukningu og eins með samningum á milli eigenda, lánveitenda og leigusala. Landsbankinn eignast þriðjungs hlut í þessu þriðja stærsta hótelfyrirtæki landsins.

Með þessum breytingu er Keahótelunum tryggður stöðugur rekstrargrundvöllur fram á árið 2022 samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Þar segir að viðræður um endurskipulagningu reksturs Keahótela hafi staðið yfir um nokkra hríð.

„Niðurstaðan er samkomulag sem bindur saman hagsmuni eigenda og annarra hagsmunaaðila, sem eru annars vegar Landsbankinn og hins vegar ýmis fasteignafélög. Í því felst að hluti skulda verður breytt í hlutafé og núverandi eigendahópur kemur með umtalsvert nýtt fé inn í reksturinn. Leigusalar gera samkomulag um veltutengdar leigugreiðslur sem eru þó með ákveðnu lágmarksgólfi,“ segir í tilkynningunni.

Allir í núverandi eigendahópi Keahótela taka þátt í hlutafjáraukningunni og mun þessi hópur halda á um tveimur þriðju hlutafjár eftir hana. 

„Hluthafar vilja þakka Landsbankanum og leigusölum hótelanna fyrir að farsælt samkomulag náðist um endurskipulagningu félagsins og fyrir að hafa trú á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda,“ segir Hugh Short, forstjóri bandaríska fjárfestingasjóðsins Pt Capital. En sjóðurinn hefur verið stærsti hluthafinn í Keahótelunum.

„Fyrir liggur að aðilar samkomulagsins hyggjast takast á við næstu misseri saman eða þar til eðlilegt ástand skapast á ferðamarkaðinum að nýju. Ljóst er að Covid-19 hefur haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ferðaþjónustuna, bæði hér á landi og um allan heim. Fyrir þá sem munu lifa í gegnum þessa óvenjulegu tíma geta orðið til ýmis ný tækifæri og á þeirri vegferð skiptir miklu að vera með fullfjármagnað félag og reksturinn tryggðan til lengri tíma,“ segir Short.

Líkt og Túristi hefur áður greint frá þá hefur hótelum innan Keahótelanna fækkað um tvö að undanförnu.