Uppsagnir flugmanna ekki dregnar tilbaka

Boeing þota Icelandair við flugstöðina í Denver í Bandaríkjunum. Mynd: Denver Airport

Uppsagnir sextíu og átta flugmanna Icelandair munu taka gildi frá og með áramótum. Þetta kom fram á upplýsingafundi sem Icelandair hélt með flugmönnum seinnipartinn í dag. Þar með verða flugmenn á launaskrá flugfélagsins aðeins 71 talsins þann 1. janúar nk.

Til samanburðar þá störfuðu 562 flugmenn hjá Icelandair sumarið 2019 en næstkomandi sumar gerir flugfélagið ráð fyrir að framboðið verði 25 til 30 prósent minna en í hittifyrra. Ef sú áætlun á að ganga upp er ljóst að félagið þarf að endurráða stóran hóp flugmanna fljótlega.

Með aðeins 71 flugmann í vinnu þá nær Icelandair nefnilega rétt að manna tvær til fimm farþegaþotur líkt og fram kom í máli Jóns Þórs Þorvaldssonar, formanns Félags íslenskra atvinnuflugmanna, hér á síðum Túrista í lok síðustu viku. Þar eru ekki meðtaldir þeir flugmenn sem fljúga fraktvélum félagsins.