Verður bólusetning forsenda þess að mega ferðast?

Ísland er eitt þeirra landa sem gæti gert kröfu um að ferðamenn verði að vera bólusettir að mati sérfræðings Lonely Planet.

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Island.is

Þó bóluefni vegna Covid-19 séu handan við hornið þá liggur ekki fyrir hversu fljótt fjölmenn ríki ná að bólusetja þegna sína. Þannig varaði yfirmaður sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna við því í vikunni að næstu mánuðir verði erfiðir þar sem bið yrði eftir því að áhrifa bólusetninga fari að gæta. Í Svíþjóð, þar sem íbúafjöldinn er aðeins tíu milljónir, búast stjórnvöld fyrst við að ljúka bólusetningum næsta sumar.

Hér á landi ætti ferlið að taka mun skemmri tíma líkt og fram kom í ræðu Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, á Alþingi á fimmtudaginn. Hún bæti því þó við að fara yrði að öllu með gát fram á næsta sumar.

Það er því ekki í hendi að heimsbyggðin komist á ferðina á næstu mánuðum og í nýrri grein á vef ferðaritsins Lonely Planet er því velt upp hvort aðeins þeir sem eru bólusettir fái að ferðast milli landa á næsta misserum.

Sérstaklega gætu kröfurnar verið strangar í löndum þar sem betur hefur tekist að hefta útbreiðslu Covid-19 en víða annars staðar að mati sérfræðings sem Lonely Planet ræðir við. Sá nefnir einmitt Ísland sem eitt þeirra landa sem gætu gert þess háttar kröfur. En einnig lönd eins og Kína, Ástralía og Nýja-Sjáland.

Ennþá hafa hvorki ráðamenn í þessum löndum né öðrum viðrað þess háttar reglur og aðeins stjórnendur ástralska flugfélagsins Qantas hafa gefið út að farþegar félagsins verði beðnir um sönnun fyrir Covid-19 bólusetningu.

Það er því of snemmt að segja til um hvort það verði aðallega íbúar fámennra landa sem komast í utanlandsferðir á næsta ári á meðan þegnar fjölmennra ríkja þurfi, annað sumarið í röð, að ferðast innanlands.

Þessi grein er öllum opin en flestar ferðafréttir Túrista eru aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.