Vilja líka komast í greiðsluskjól í Noregi

Dómstóll í Dublin veitti í gær samþykki sitt fyrir því að írsk dótturfélög Norwegian fengju að fara í greiðsluskjól. Þar með fá þessi dótturfélög frið fyrir kröfuhöfum fram til 26. febrúar á næsta ári. Stór hluti flugflota Norwegian tilheyrir þessum írsku dótturfélögum.

Nú í morgun óskuðu svo stjórnendur Norwegian eftir greiðsluskjóli fyrir flugfélagið sjálft og nú í heimalandinu, Noregi. Fjárfestar tóku vel í tíðindin því í fyrstu viðskiptum dagsins hækkaði gengi hlutabréfa um tuttugu prósent.

Norwegian hefur verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli og var það flugfélag sem flutti flesta milli Íslands og Spánar. Auk þess hefur Norwegian boðið upp á beint flug hingað frá Ósló allt árið um kring.

Á heimasíðu Norwegian er ennþá hægt að bóka flug frá Íslandi til Alicante og Barcelona næsta vor. Í ljósi aðstæðna vegna heimsfaraldursins þá eru kannski ekki margir sem bóka miða þessa dagana og ennþá síður nú þegar flugfélagið er komið í greiðsluskjól.

Eftir fjárhagslega endurskipulagningu Norwegian í vor þá eignuðust kröfuhafar og þá aðallega flugvélaleigur meirihlutann í flugfélaginu. Þessir hlutahafar eru þó ennþá í dag meðal helstu kröfuhafa en settu sig hins vegar ekki upp á móti því að Norwegian færi í greiðsluskjól á Írlandi.