Banna flugfarþegum tímabundið að taka með sér byssur til Washington

washington hvitahusið David Everett Strickler
Joe Biden tekur við lyklavöldum í Hvíta húsinu á miðvikudaginn. Mikil spenna ríkir í borginni vegna atburða síðustu daga.

Allir þeir sem fljúga ætla með Delta, American Airlines og Alaska Airlines til Washington næstu daga fá ekki að innrita skotvopn. Þessi regla gengur í gildi nú um helgina og gildir út næstu viku samkvæmt frétt CNBC. En á miðvikudaginn lætur Donald J. Trump af embætti forseta Bandaríkjanna og Joe Biden tekur við.

Delta var fyrst flugfélaga til að setja þessar takmarkanir á vopnaflutningum og þá var haft eftir forstjóra félagsins að viðvörunarstigið í höfuðborginni hefði hækkað verulega eftir atburðina við þinghúsið í síðustu viku.

Til viðbótar þá hafa flest flugfélög vestanhafs tekið fyrir sölu á áfengi í flugi til og frá Washington borg.

Stjórnendur Airbnb hafa á sama tíma fellt niður allar bókanir á gistingu í borginni í næstu viku. Mun fyrirtækið í staðinn greiða íbúðaeigendum þá leigu sem þeir fara á mis við vegna þessa.

Öryggisgæsla í kringum flugvelli og hótel í bandarísku höfuðborginni hefur verið efld töluvert síðustu daga vegna spennunar sem nú ríkir þar.