Biðinni eftir flugi til Bandaríkjanna ekki lokið

Áfram munu gilda strangar reglur um ferðir fólks á milli Evópu og Norður-Ameríku. Mynd: London Heathrow

Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að nú yrði tíu mánaða gömlu ferðabanni frá flestum ríkjum Evrópu aflétt frá og með 26. janúar. Þessari ákvörðun hyggst hins vegar verðandi forseti, Joe Biden, snúa við.

Þetta kom fram í færslu talskonu Biden á Twitter í gærkvöld. Þar segir hún að ekki sé tímabært að fella niður þessar ferðatakmarkanir vegna þess hve mikil útbreiðsla Covid-19 er ennþá víða um heim. Talskona Biden bætti því við að verðandi stjórn ætli að efla sóttvarnir í kringum millilandaflug enn frekar.

Um áramótin gáfu stjórnvöld í Kanada út breyttar reglur varðandi fólksflutninga. Þær fela meðal annars í sér að áfram mega aðeins útlendingar með brýnt erindi til Kanada koma inn fyrir landamærin. Stjórnendur kanadískra flugfélaga hafa gagnrýnt þá ákvörðun og sömuleiðis þá staðreynd að stjórnvöld hafa ekki gripið til neinna sértækra aðgerða til að styðja við fluggeirann í landinu.