Biður fólk um að afbóka utanlandsferðir í vorfríinu

toronto b
Frá Toronto. Mynd: Visit Toronto

Landamæri Kanada hafa nær allan heimsfaraldurinn verið lokuð og aðeins heimamenn sjálfir og útlendingar með brýnt erindi sem komast inn í landið. Þrátt fyrir þessar miklu takmarkanir og þá staðreynd að flugsamgöngur til útlanda eru litlar þá hafa kanadísk flugfélög ekki fengið neina sérstaka aðstoð frá þarlendum stjórnvöldum.

Og það er ekki útlit fyrir að kanadískir ráðamenn ætli að greiða fyrir millilandaflugi á næstunni því í færslu á Twitter í gær beinir Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, því til íbúa landsins að þeir haldi sig áfram innanlands. Hann bætir því við að þeir sem eigi bókaðar ferðir í komandi vorfríi afbóki ferðir sínar.

Vorfríið í Kanada er allt að vikulangt og í fjölmennustu fylkjunum er það á dagskrá upp úr miðjum mars. Það á til að mynda við um Ontario-fylki en Toronto, stærsta borg landsins, tilheyrir því.

Vanalega eru flugsamgöngur milli Íslands og Kanada tíðar en síðasta ferð Icelandair til Toronto var þann 24. mars í fyrra. Samkvæmt flugáætlun félagsins er gert ráð fyrir að taka upp þráðinn í fluginu til Toronto þann 8. mars nk.

Auk Icelandair þá áformar Air Canada að fljúga til Íslands í sumar frá bæði Montreal og Toronto. Fyrsta ferð er þó ekki á dagskrá fyrr en í sumarbyrjun. Hins vegar er ekki útlit fyrir að WestJet nýti afgreiðslutíma sína á Keflavíkurflugvelli í sumar.