Covid-19 vottorðið álíka dýrt og flugmiði

Það eru ekki margir á ferðalagi á milli landa þessa dagana en þeir sem þess þurfa verða að gera ráð fyrir þónokkru umstangi og kostnaði við að komast yfir landamæri.

Á Heathrow flugvelli í London geta farþegar bókað skimun fyrir Covid-19 en niðurstöður fást ekki endilega samdægurs. Mynd: London Heathrow

Frá og með miðvikudeginum verða þeir sem nýta sér áætlunarflugið héðan til Boston að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu í nýju Covid-19 prófi. Sömu kvaðir eru á þeim sem fljúga héðan til London og Kaupmannahafnar.

Sá sem er sjúkratryggður hér á landi borgar samtals 13.395 krónur fyrir skimun og vottorð hjá Heilsugæslunni. Gjaldið er nærri tvöfalt hærra fyrir þá sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi eða 24.475 krónur samkvæmt nýrri verðskrá.

Til samanburðar kostar flugmiði með Icelandair til London á sunnudaginn rúmar 15 þúsund krónur.

Íslendingar með lögheimili í útlöndum og aðrir ferðamenn sem hingað koma þurfa að borga hærra gjaldið. Og í sumum tilvikum verða farþegar líka að borga fyrir skimun áður en lagt er í hann til Íslands.

Líka þeir sem millilenda

Það á til dæmis við ef millilent er í landi þar sem farþegar eiga að framvísa neikvæðu Covid-19 vottorði.

Þar með verður sá sem neyðist til að millilenda í þessum borgum á leiðinni heim til Íslands að verða sér út um skimun og vottorð í útlöndum.

Samkvæmt heimasíðu easyJet kostar skimun í Bretlandi að minnsta kosti 72 pund en það jafngildir nærri 13 þúsund kr. Á heimasíðu Heathrow flugvallar er hægt að bóka skimun en hún kostar nærri 20 þúsund kr. Niðurstöður fást innan tveggja sólarhringa.

Breyttar reglur á Keflavíkurflugvelli í vor

Þann 1. maí nk. verður sú regla tekin upp á landamærum Íslands að ferðamenn verða undanþegnir sóttkví og síðari skimun ef þeir getað framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu PCR-prófs. Þetta á þó aðeins við þá sem koma frá löndum þar sem tíðni smita er lág.

Þeir sem geta sýnt fram á vottorð um bólusetningu eða mótefni sleppa hins vegar við þetta umstang.