Dótturfélög Norwegian í þrot og félagið hættir Ameríkuflugi

Jacob Schram forstjóri Norwegian. MYND: NORWEGIAN

„Innanlandsflug í Noregi og flug milli heimamarkaða okkar á Norðurlöndunum og innan Evrópu hefur alltaf verið hryggjarstykkið í leiðakerfi Norwegian. Og þetta verður grunnurinn að rekstri Norwegian í framtíðinni,“ útskýrir Jacob Schram, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu nú í morgun.

Þar kemur fram að félagið ætli að leggja niður allt flug til annarra heimsálfa en félagið hefur verið mjög umsvifamikið í flugi til Norður-Ameríku og veitt Icelandair harða samkeppni á mörgum áfangastöðum.

Um tvö þúsund starfsmenn Norwegian missa vinnuna vegna þessara breytinga.

„Heimsfaraldurinn hefur sett fluggeirann í mjög krefjandi stöðu og því nauðsynlegt að taka mjög erfiðar ákvarðanir. Eftirspurn eftir flugi milli heimsálfa hefur horfið og allar langdrægu þoturnar okkar verið á jörðu niðri síðan í mars í fyrra. Það er erfitt að sjá fyrir sér að þessi markaður taki við sér á ný og því mikil áhætta fólgin í því að halda áfram,“ bætti Schram við á blaðamannfundi nú í morgun.