Endurkoma Norwegian dregst á langinn

Ætlunin er að grynnka á skuldum flugfélagsins um nærri áttatíu prósent. Þau áform byggjast þó á því að greiðslustöðvun félagsins verði framlengd.

Borgarfógeti í Ósló hélt fund í morgun með stjórnendum Norwegian flugfélagsins og kröfuhöfum en flugfélagið fór í greiðslustöðvun í Noregi í desember. Fundurinn var hluti af því ferli.

Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla þá kom það fram í máli Jacob Schram, forstjóra Norwegian, á fundinum að hann gerir ráð fyrir að félagið hafi burði til að auka starfsemina jafnt og þétt frá byrjun sumars.

Það mun aftur á móti taka lengri tíma að koma fjárhagsstöðu Norwegian í það góðar horfur að félagið þarf ekki lengur vernd fyrir kröfuhöfum sínum. Fyrstu áform gerðu nefnilega ráð fyrir að því greiðslustöðvuninni myndi ljúka í lok febrúar en núna er horft til byrjun apríl samkvæmt frétt E24.

Þær áætlanir sem stjórnendur Norwegian kynntu nýverið gera ráð fyrir að skuldir félagsins fari úr 46 milljörðum norskra króna og niður í 10 milljarða. Sú lækkun nemur nærri 550 milljörðum íslenskra króna.

Á sama tíma verður flugfloti félagsins skorinn verulega niður eða úr 140 þotum í fimmtíu. Og þar af vill Norwegian losna við allar Boeing Dreamliner þoturnar sínar og um leið hætta öllu áætlunarflugi til Norður-Ameríku og Asíu.