Ennþá bið eftir bata í fluggeiranum

Mynd: Nils Nedel / Unsplash

Bókanir á flugmiðum jukust í kjölfar frétta af jákvæðum niðurstöðum í þróun bóluefna við Covid-19 í byrjun nóvember. Bókunarstaða flugfélaga versnaði hins vegar undir lok síðasta árs og nú í byrjun 2021. Þetta kemur fram í nýjum tölum IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga.

Þar segir að í dag séu pantanir á flugi í febrúar nk. 82 prósent undir því sem var á sama tíma í fyrra. Fækkun bókanna í mars nemur 81 prósenti.

Spár IATA gera ráð fyrir að það verði fyrst í lok þess árs sem sjóðstreymi flugfélaga verði almennt jákvætt.

„Við erum farin að sjá ljósið við enda ganganna,“ segir aðalhagfræðingur IATA í samtali við Flight Global. Hann bætir því þó við að ennþá sé löng leið framundan og aðstæður eigi líklega eftir að versna áður en batinn hefst.