Farþegum Icelandair fækkaði um 83 prósent í fyrra

Kórónuveirufaraldurinn hafði gríðarleg áhrif á starfsemi flugfélaga á síðasta ári. Þetta endurspeglast í nýjum farþegatölum Icelandair sem sýna að félagið flutti aðeins 763 þúsund farþega allt árið 2020. Það jafngildir samdrætti upp á 83 prósent frá árinu 2019.

Langmest fækkaði tengifarþegum í fyrra eða um 92 af hundraði en farþegum á leið til og frá Íslandi fækkaði um 76 prósent.

Í desember fjölgaði farþegum Icelandair frá því sem verið hefur síðustu mánuði sem skýrist af aukinni eftirspurn eftir ferðalögum yfir jól og áramót. Engu að síður fækkaði farþegum félagsins um 95 prósent í desember.